föstudagur, 28. september 2012

Rafmögnuð endurgerð...

Kúrbíturinn hefur lengi verið hrifinn af Piaggio Ape Calessino sem upphaflega var hannaður af Corradino d‘Ascanio og sló í gegn á árunum 1950-1960, tímabil sem oft hefur verið nefnt La Dolce Vita. Piaggio Ape Calessino varð mjög vinsæll þar sem hann endurspeglaði kjarna þess sem Ítalir stóðu fyrir: njóta lífsins með stíl en samt á einfaldan hátt.

Nú getur fólk upplifað drauminn þar sem nú hefur verið hafinn framleiðsla á nýjum Piaggio Ape Calessino sem knúinn er rafmagni og verður framleiddur í takmörkuðu upplagi, einungis verða 999 eintök framleidd.




Í viðjum ónauðsynleikans

Lífið er fullt af svo mörgu. Áreiti og freistingar. Sumt hjá sumum en annað hjá öðrum. Hefst með einu skipti en verður fljótt að vana. Tilgangurinn oft óljós en afleiðingin ljós – tímaeyðsla og tilgangsleysi.

Stundum er gott að hverfa burt í nokkurn tíma, brjóta upp mynstrið og kollsteypa tilverunni. Ný sýn á allt og stundum alla. Horfa á hversdagslíf sjálfs síns með gagnrýnum augum. Oft kemur í ljós að stór hluti af vönum hversdagsins hafa þann eina tilgang að drepa tímann.

Einkennilegt notkun á tíma þar sem enginn lifir að eilífu...

miðvikudagur, 3. febrúar 2010

ÞESSI LEYNIÞRÁÐUR...

Oft hefur verið sagt að á milli manns og hests og hunds hangir leyniþráður. Einhver þráður sem myndast án orða en með fullkomnu samþykki og skilningi. Traust og væntumþykja sem vex með samveru og nánum kynnum.

Ferðalag með þessum félögum, hesti og hundi, um fornar götur fjarri mannabyggð er stórkostleg upplifun. Tilhugsunin um félagsskap þarfasta þjónsins og besta vinar mannsins ásamt brjóstbirtu á pela í fallegri náttúru er einhvern veginn svo fullkomin.

Það er blankalogn á köldum sumardegi, þokan þykk og skyggni ekkert. Smá lögg eftir í pelanum og ennþá tvær brauðsneiðar eftir í hnakktöskunni. Maður löngu búinn að tapa áttum, gjörsamlega villtur og tímaskynið horfið. En á baki hestsins heldur maður áfram með slakan taum, lætur hugann reika, fullur trúnaðartrausts, vitandi vits að hesturinn skilar manni heim, heilum og höldnum.

mánudagur, 25. janúar 2010

Allt verður fullkomið...
Á björtum sumarkvöldum neitar sólin að setjast, hún felur sig kannski í örskamma stund, en birtist svo á nýjan leik og allt verður fullkomið. Það er yndislegt að taka hnakk sinn og hest við slíkar aðstæður og ríða út í kvöldsólinni. Íslenski gæðingurinn tengir mann einhvern veginn við svo ótal margt af því sem gerir Ísland að stórkostlegum stað, sérstöðu landsins í allri sinni dýrð. Í mínum huga eru það mikil forréttindi að eiga föður sem hefur átt hesta í meira en hálfa öld og þekkir að auki sögu okkar ástkæra lands frá upphafi til enda. Allt einhvern veginn í blóðinu, kynslóð eftir kynslóð.

Tilhugsunin um að ferðast á hestum í góðum félagsskap í glitrandi kvöldsólinni um íslenska náttúru er á allan hátt yndisleg. Í föruneyti föður míns fær maður að auki sögu lands og þjóðar beint í æð. Í þessum ferðum segir hann manni sögur af höfðingjum, konungum, biskupum, ribböldum, prestum, þrælum, skáldum, húsfreyjum og hjúafólki. Segir manni sögur af deilum, mannvígum, vígaferlum, drekkingum, bardögum, hestaötum og hefndum.

Sögurnar eru stórkostlegar og eiga það sammerkt, þær gerðust í grenndinni.

sunnudagur, 27. september 2009

Lífræn koníakstofa...
Lífræna koníaksstofan verður staðsett í fallegu rjóðri á fallegum stað undir berum himni. Viðarstólar, bekkir, borð umkringis arininn þar sem viðurinn úr skóginum mun brenna og ylja líkamanum á fallegum sumarnóttum í fallegri sveit.

Tilhugsunin er stórkostleg…

föstudagur, 11. september 2009

Vængjuð orð...
“Samt dáðist ég enn meir að hinu, hve hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.” (Tómas Guðmundsson)

mánudagur, 7. september 2009

Leiðirnar...
Í lífinu gengur maður ákveðna leið, stundum til góðs, stundum ekki. Sumir ganga mismunandi leiðir í stuttan tíma sinn en aðrir ganga sömuleiðina, allt til enda. Oft velur maður þá leið sem maður gengur í lifinu en stundum togar leiðin í mann sjálfan. Spurning um að velja eða vera valinn. Oft er leiðin greið, stundum grýtt en sjaldnast ófær.

Seint um síðir getur það gerst að maður vaknar upp við vondan draum, svokallaðan raunveruleika. Stundum of seint en oftast ekki. Einhver innri rödd eða tilfinning öskrar á breytingar, leit að nýrri leið sem maður velur sjálfur.

Kúrbíturinn leitar nýrra leiða...

mánudagur, 31. ágúst 2009

Gott að eiga sér leiksvið...
Kúrbíturinn er á leið til Mílanó á nýjan leik. Það er ekki borgin sem kallar’ann, borgin ein og sér er dauð. Það er fólkið sem glæðir lífi í borgina. Hús, götur og torg. Borgin er leiksviðið, fólkið eru leikendurnir og allt iðar af lífi.

Það er gott eiga sér sitt eigið leiksvið í framandi landi. Hér og þar, hingað og þangað. Komast burt eða mögulega aftur heim. Ólíkar áherslur, áhrif og tíðarandi.

Njóta og mergsjúga alveg í botn...

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Vængjuð orð...
“Það má áfengið eiga, að það hefur aldrei gert neinum manni mein að fyrra bragði.” (Tómas Guðmundsson)

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Né fram, né aftur...
Tíminn er takmörkuð auðlind, eftirspurnin yfirgnæfir framboðið. Mikilvægt að fara vel með þann kvóta sem okkur er úthlutað.

Öllum er hollt að horfa stundum um öxl, líta yfir farinn veg og ylja sér við góðar minningar. Stundum er mikilvægt að horfa langt fram á veginn, velja sér markmið og sjá þau ljóslifandi verða að veruleika. En mikilvægast af öllu er að njóta nákvæmlega þeirra stundar sem er að líða hverju sinni.

Er þetta ekki spurning um að njóta nútíðarinnar, allan daginn, hvern einasta dag. Hljómar einhvern veginn betur en að njóta framtíðarinnar í nútíðinni eða njóta nútíðinnar þegar hún er orðin að fortíð.

Kúrbíturinn ætlar að njóta ferðalagsins í stað þess að einblína á áfangastaðinn...

föstudagur, 7. ágúst 2009

Með staðfest fyl þessi elska...
Feðgarnir að Seylu ákvaðu að fjárfesta í framtíðinni, kaupa drátt sem var valinn af kostgæfni. Drátturinn kostaði sitt en verður vonandi þess virði. Allt kemur í ljós, einungis spurning um tíma, slatta af þolinmæði og lágstemmdar væntingar.

Æsa Seifsdóttir fór undir Aðal Adamsson...

fimmtudagur, 18. júní 2009

Vængjuð orð...
"Heldur en að gera ekkert við þessi helvíti, þá sæmdi ég þá skyrinu" (Helgi Hóseasson)

fimmtudagur, 11. júní 2009

Að selja eða selja ekki...
Það er einhvern veginn þannig að maður á það til að vilja eignast hluti sem verða hluti af manni sjálfum á einhvern fáránlegan og mjög svo einkennilegan hátt.

Kúrbíturinn á bifreið sem hefur verið hluti af honum í þó nokkurn tíma. Þetta er gullfalleg 27 ára blæjubifreið af gerðinni Mercedes Benz. Eitt sinn notaði Kúrbíturinn bifreiðina mikið og hún varð einhvern vegin hluti af þeirri persónu sem Kúrbíturinn taldi sig vera á þeim tíma. Undanfarin misseri hefur bifreiðin staðið inn í bílskúr staðsettum í úthverfi Reykjavíkur, rétt hreyfður endrum og eins. Á þessum tíma hefur skynjun Kúrbítsins á því að bifreiðin sé hluti af honum rofnað, orðið að engu og fjarað út. Í dag er þetta einfaldlega ansi dýr hlutur geymdur inn í bílskúr og ekki nýttur í þeim tilgangi sem hann var framleiddur til, þ.e. að koma fólki á milli staða.

Þegar Kúrbíturinn horfir á þessa bifreið í dag þá sér'ann ekkert nema fallegan hlut sem geymdur er innan um garðáhöld, verkfæri og vinnufatnað.

Að selja eða selja ekki, það er spurningin...

mánudagur, 10. nóvember 2008

Að eiga auðvelt er kostur...
Kúrbíturinn telur það vera stóran kost að eiga auðvelt með að fyrirgefa fólki, fólki sem hefur gert eitthvað á manns eigin hlut. Það sem er liðið er liðið. Það hefur einhver frelsandi áhrif að fyrirgefa, ýta atburðinum á bak við sig og horfa fram á veginn.

Einhvern veginn svo nauðsynlegt á þessum síðustu og verstu...

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Inn á við, frekar en út á við...
Það er einhvern veginn svo tilgangslaust að vera í endalausri samkeppni við allt og alla. Sá eini sem Kúrbíturinn þarf að verða betri en, er hann sjálfur á þessari stundu.